Ástandið á eldhúsinu okkar (þegar Fróði var eins til tveggja og Kría fimm til sex).
2019-2020 ákvað ég að snúa myndavélinni inn á við, athuga hvernig er að láta skrásetja líf sitt, bjóða heimildarljósmyndaranum í heimsókn og opinbera ákveðinni hluta lífsins. Í þeim tilgangi skrúfaði ég myndavélina upp í loft og myndaði ástandið á eldhúsinu okkar, nánast á hverjum degi, í eitt ár.
Sjónarhornið eins og við þekkjum það helst úr þáttaröðum sjónvarpskokkanna eða úr klippum á samfélagsmiðlum, þar sem allt er gert til að láta matinn líta sem best út. En eftir matinn, þar sem kjúklingahræ og óhreinir sokkar mætast innan um mjólk á gólfi og veggjum er ástandið ekki jafn girnilegt. Áhorfandinn mætir á svæðið eftir að atburðinn á sér stað og lítur yfir sviðið eins og fornleifafræðingur í leit að vísbendingu um hvað hafi átt sér stað.
Með því að snúa hlutverkunum við, gerast viðfangsefnið sjálfur, áttaði ég mig betur á því hvað maður gerir ósjalfrátt til að fegra veruleikann. Allt í einu stóð ég mig að því að fela notaðar kók dósir og druslast til að elda því ekki væri hægt að sýna fólki að take-out hefði verið á boðstólum tvo daga í röð.